Færsluflokkur: Bloggar

Bókmenntir og listir eða Síld og fiskur?

FYRIR nokkrum árum kenndi ég á námskeiði í Leiðsöguskóla Íslands þar sem ég fjallaði um íslenskar bókmenntir og aðrar listgreinar. Ég greindi nemendum frá þeirri þversögn sem fólgin er í því að tefla saman orðunum bókmenntir og listir í sama andartakinu. Bókmenntir eru auðvitað listgrein svo við ættum frekar segja bókmenntir og aðrar listir. Þegar ég hafði tjáð mig um þessi mál sagði einn nemendanna upp úr eins manns hljóði: já, bókmenntir og listir, er það ekki líkt og þegar við segjum Síld og fiskur?

Jú, mikið rétt. Staðreyndin er sú að okkar ágæti bókmenntaarfur er svo þurftarfrekur að hann fær sérstakan bás í tungumálinu eins og síldin og skyggir stundum á aðrar listgreinar. Þetta sést hvergi betur en í framhaldsskólum landsins þar sem stærsti hluti íslenskunámsins er hrein bókmenntakennsla.

Í skólunum gefst ekkert svigrúm til að sinna öðrum listgreinum, svo sem tónlist, húsagerðarlist eða myndlist og við útskrifum stúdenta án þess þeir hafi hugmynd um hverjir Ásmundur Sveinsson eða Páll Ísólfsson voru, svo einhver dæmi séu tekin, og hafa fæstir komið á Þjóðminjasafn Íslands eða Árbæjarsafn síðan þeir voru í leikskóla.

Ég er þeirrar skoðunar að þörf sé á grundvallarbreytingum á kennsluháttum og námsefni, bæði í grunn- og framhaldsskólum, með það að keppikefli að víkka bókmenntakennsluna yfir á önnur svið þar sem bilið milli einstakra listgreina yrði brúað. Þar gefst tækifæri á mikilli samþættingu við kennslu. Svo vísað sé til þeirra listamanna sem fyrr voru nefndir samdi Páll Ísólfsson tónlist við Gullna hliðið og Ásmundur byggði höggmyndir sínar oft á bókmenntum.

Fleiri dæmi mætti nefna. Líta má á kirkjur landsins sem hús listanna, þar er iðkuð tónlist, þar gefur að líta myndlist og í kirkjum er hluti bókmenntaarfsins til staðar í Biblíunni og sálmabókum. Auk þess eru guðshúsin oft góð dæmi um húsagerðarlist. Einnig má nefna gömul handrit til sögunnar. Í sumum þeirra er að finna myndlist og jafnvel nótur sem hafa verið dregnar fram í dagsljósið á síðustu árum og breytt í lifandi tónlist.

Hugmyndir mínar hefðu miklar breytingar í för með sér, bæði á kennaramenntun, námskrám og námsefni. En ávinningurinn yrði hins vegar sá að við fáum betur menntaða einstaklinga sem þekkja söguna og samfélagið frá fleiri hliðum en áður.

Síldin rís vart lengur undir nafni sem silfur hafsins. Og er ekki kominn tími til að bræða hinn silfurslegna bókmenntaarf saman við aðra góðmálma íslenskra lista?

Höfundur starfar sem kennari og rithöfundur


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband